Fræðsla

Höfuðburður höf. Trausti Þór Guðmundsson

Grein birt í Eiðfaxa árið 2001 - höf. Trausti Þór Guðmundsson
Myndir: Höfundur og stóðhesturinn Svartur frá Unalæk

Þegar menn virða fyrir sér hest undir knapa, annað hvort í frjálsri reið, eða inni á velli í þjálfun eða sýningu, er fyrst og fremst tvennt sem grípur athygli áhorfenda, hár fótaburður og fallegur höfuðburður. Þetta tvennt hefur mest að segja um "fas" hestsins. Síðan þekkjum við að sjálfsögðu hugtökin mjúkur, rúmur og getumikill, sem einnig hefur áhrif á fasið. Margir samspilandi og aðskyldir þættir hafa áhrif á hvernig hestur fer í reið. Enginn hestur getur t.d. verið í fallegri höfuðburði en bygging hans leyfir. Þess vegna er nauðsynlegt að knapinn byrji á að gera sér grein fyrir möguleikum og takmörkunum hvers hests áður en hann byrjar að móta höfuðburðinn. Aldrei ætti að reyna að þvinga fram eitthvað sem hesturinn ræður ekki við, t.d. þvinga fram höfuðburð sem hesturinn á ekki auðvelt með. Ef hestinum líður ekki vel bitnar það alltaf á getu hans og hreyfingafegurð og gangtegundum. Bygging hests er í öllum þáttum mikilvæg, en þar sem grein þessi fjallar aðallega um höfuðburð, skulum við halda okkur við framhluta hestsins þ.e. háls, herðar og bóga. Höfuðburður hests ræðst (að mestu) af samsetningu og gerð framhlutans. Best er að hálsinn sé hæfilega langur, ekki of langur og ekki of stuttur. Æskilegt er aað bógar séu skásettir og herðarnar háar. Mikilvægt er að hálsinn komi vel upp úr herðum en ekki sé slöður fyrir framan herðakambinn. Hálsinn skal vera klipinn í kverk og hnakkabandið langt og eftirgefanlegt. Hestur með slíkan háls á auðvelt með að koma í fallegan höfuðburð og verður oftast mjúkur í beisli, vegna þess að hann á tiltölulega létt með að gefa eftir. Hestur með bratta bóga, lágar herðar (stutt hnakkaband) og þykkan háls, getur ekki borið sig á sama hátt og hættara er við vandamálum í beisli, vegna þess að hann á erfiðara með að gefa eftir.

Mikilvægi góðs höfuðburðar
Stilli hestur háls og höfuð á einhvern ákveðinn hátt, þ.e. hæð höfuðburðar, lengd höfuðburðar og stefna (sveigður eða ekki sveigður) hefur það áhrif á hvernig hann stillir og heldur bakinu. Spenni hesturinn hálsinn td. gegn taumnum, spennir hann einnig bakið. Stilling baks og spenna bakvöðva stjórnar ganglagi hestsins. Hesturinn notar kviðvöðva til hjálpar við að stilla bakið. Þeir styðja við. Á þessu má sjá hve mikil áhrif höfuðburður hefur á gangtegundir og hreifingar hestsins.

Forsendur góðs höfuðburðar
Þegar reiðhestur hefur náð þeim styrk og jafnvægi sem hlutverk hans krefst, beitir sér ákveðið fram undan hvatningu knapans, og þýðist hamlandi taumsamband, leitar hann í þann besta höfuðburð sem líkamsbygging hans býður uppá. Góður reiðmaður lætur hestinum líða vel í þeirri stillingu, en þá verður hesturinn óþvingaður og mjúkur. Áhrif höfuðburðar á hreifingar og ganglag Það segir sig sjálft að ekki getur hestur borið höfuð og háls eins á öllum gangtegundum, eigi hver þeirra að verða svo góð sem kostur er á.

Dæmi: Hestur sem gengur vel reistur á tölti, hreingengur og mjúkur, en kann ekki að fella hálsinn (lækka höfuðburðinn) á brokki. Brokkið verður óöruggt og ekki takthreint (brotinn taktur). Hesturinn flýtir sér gjarna, og þolir ekki neitt taumsamband, eða að knapinn setjist í sætið. Öll truflun verður merki til hestsins um að skifta um gangtegund og tölta.

Dæmi: Hestur sem gengur töltið ofreistur, með hjartarháls, getur ekki fært afturfætur næginlega inn undir sig vegna þess hve fatt og burðarlaust bakið er, og reyni knapinn að hvetja hestinn betur fram að taumnum, leitar hesturinn jafnvel undan þrístingnum í enn hærri höfuðburð. Þegar svona er ástatt fyrir hesti, gengur hann með herðarnar niðri, og töltið verður óhreint í takti, bundið eða brokktaktað. Reyndar verður maður að líta á töltið sem eitthvað meira en bara ákveðna fótaröðun á fjórtakti. Á góðu tölti heldur hesturinn á knapanum með sterkum, virkum og fjaðrandi vöðvum, og hreifingin verður nægilega hliðstæð til að hesturinn nái að halda takti sjálfur án of mikillar hjálpar frá knapanum. Hvernig hesturinn notar bak og kiðvöðva stjórnast mikið af höfuðburði hans.

Dæmi: Hestur er mjög eftirgefanlegur í hálsi, en sveigir hálsinn ofnærri herðum, og kemur þar með í of djúpan höfuðburð, eða eins og kallað er fer á bakvið lóðlínu. Þessi galli í höfuðburði kallar á of mikla spennu í herðum og baki, og heftir eðlilega hreifingu herðablaða og bóga. Fjöðrun í baki verður lítil eða engin. Bakið of hátt, og þarafleiðandi erfitt að færa afturfætur inn undir hestinn. Stundum blekkir svona höfuðburður sé hann ekki mjög djúpur, þ.e. knapanum finnst hann vera með hestinn í söfnun, en svo er ekki.

Dæmi: Hestur er missterkur, og gengur þarafleiðandi ekki samspora eins og sagt er, en það er einfaldlega ef að hestur gengur skakkur eins og hundar gera oft, framhlutinn ekki beint fyrir framan afturhlutann. Spenna í líkamsvöðvum verður ójöfn, þ.e. meiri spenna í annari hliðinni. Þetta veldur ójafnvægi, td. Að hestur hlaupi uppá annan fótinn á tölti og brokki, eða leiti í bundna hreifingu. Eins er erfitt að fá hest í rétta og jákvæða söfnun, en hana getur hann flúið með því að skjóta bógnum út.

Höfuðburður á feti
Á feti á hesturinn að að ganga meðalreistur, og mjúkur í hálsi. Hann skal gefa eftir í fremstu hálsliðum og vera sáttur við taumstuðning, þannig að knapinn geti hvatt hann að taumnum án þess að hann stytti sporið. Hafi hesturinn ekki lært eftirgjöf og taumstuðning (við taum), kemur það niður á skreflengd og takti fetsins.

Höfuðburður á brokki

Á brokki á hesturinn að vera meðalreistur og mjúkur í hálsi. Á sama hátt og á feti skal hann gefa eftir í fremstu hálsliðum og vera sáttur við taumstuðning, þannig að knapinn geti hvatt hann að taumnum án þess að hann stytti sporið. Auðvelt er að sjá áhrif höfuðburðar á gangtegundina brokk þegar unnið er með hest í taumhring. Ef hesturinn er of reistur, eða langur, sést lítil fjaður hreifing á baki hans, en þegar hann er orðinn rétt stilltur, sést greinilega hvernig bakið fer að fjaðra, og gangtegundin þá um leið að breytast. Svif brokksins eykst er hesturinn fer að spyrna sér ekki aðeins fram heldur einnig upp. Við þetta verður takturinn einnig hreinni, þ.e. brotni fjórtakturinn þróast í meiri tvítakt.Höfuðburður á stökki

Þegar fjallað er um höfuðburð á stökki á margt það sama við og á brokki. Hesturinn á að vera mjúkur í hálsi og eftirgefinn í fremstu hálsliðum.þannig að knapinn geti hvatt hann fram að taumnum. Við það eykst svif og hreinleiki gangtegundarinnar.

Höfuðburður á tölti

Hægt tölt er hámark söfnunar í þeim gangtegunda keppnisgreinum sem tíðkast í reiðmennsku á Íslenskum hestum. Til að hestur nái þeirri söfnun að geta gengið takthreint með fjaðurmagni og fótliftu á örhægu tölti, þarf hann að vera búinn að læra til fullnustu hvernig hann á að bregðast við því að vera undir mikilli hvatningu og mikilli hömlun samtímis. Á tölti má hesturinn ganga reistari en á grunngangtegundunum, en hugtakið “reistur og fasmikill” er alltaf notað sem jákvæð lýsing á töltara. Þegar háls hestsins er spennulaus, og hann gefur vel eftir, nær knapinn að beita hvatningunni án þess að hesturinn vilji auka hraðann, en gengur í stað þess meira inn undir sig. Hreifingin verður fjaðurmögnuð, og liðast í gegnum allan hestinn. Á greiðu tölti verður hesturinn að fá frjálsara taumsamband til þess að geta rétt aðeins úr hálsi, og auka þannig hreifingarsvigrúm bóga og framfóta. Hversu reistur hestur getur gengið á tölti er að sjálfsögðu mjög háð líkamsbyggingu hans. Grannur vel lagaður háls sem býður uppá góða hnakkabeygju gerir hestinum auðveldara að koma í fallegan höfuðburð en stuttur eða sver háls. Ekki er sýður mikilvægt hvernig hálsinn situr á hestinum, en vel skásettir bógar ásamt háum herðum prýða góðan töltara.

Höfuðburður á skeiði
Þegar að hraðinn er það eina sem máli skiftir, eru hestar gjarnan látnir skeiða á eins miklum tvítakti og mögulegt er án þess að það raski jafnvægi þeirra. Þetta þíðir að hesturinn er látinn skeiða í löngum og oft lágum höfuðburði. Þegar hinsvegar verið er að sýna hest á skeiði til einkunnar eins og td í gæðingakeppni, þá verður fas hestsins og framganga einnig að skifta máli, en ekki aðeins flýtir. Á skeiði má hesturinn vera reistur en þó aðeins svo að ekki komi niður á takti skeiðsins (meðalreistur). Hann skal vera frjáls frá taumnum, þannig að hann nái að teigja höfuðið fram, og þannig auka hreifingarsvigrúm bóga og framfóta.