Fræðsla

Fortamningar höf. Anton Páll Níelsson

Tamningar eru mér mjög hugleikið viðfangsefni. Ég hef starfað við tamningar og þjálfun hrossa, meira og minna frá því ég var 16 ára, en unnið ýmislegt annað meðfram. Einnig hef ég starfað við tamningakennslu við Hólaskóla í 7 ár og komið að prófdæmingum bæði við skólann og í verknámi á þessum 7 árum. Mér hefur með árunum orðið sífellt ljósara mikilvægi góðrar frumtamningar.


Nokkrar ástæður fyrir því eru:

- Hestar eru mjög minnugir og þeir muna bæði það sem þeim finnst gott og slæmt.
- Best er að allt takist strax, ítrekuð mistök tefja fyrir framförum því hesturinn verður óviss með hvaða viðbrögð leiða til umbunar.
- Tamningar og framhaldsþjálfun á að snúast um meira nám og aukinn þroska hestsins en ekki það að vera sífellt að reyna að LAGA það sem ekki var nægilega vel gert á fyrri stigum.

Segja má með sanni að tamningin hefjist strax við fyrstu kynni hestsins af manninum og gott að hafa hugfast að verið er að handfjatla framtíðarreiðhross, vonandi gæðingsefni. Gæðingar fæðast ekki bara gæðingsefni, gæðingar verða til við tamningu og þjálfun. En hvers vegna er verið að temja? Það má segja að það séu þrjár eða fjórar megin ástæður eða markmið. Í fyrsta lagi verðmætasköpun þ.e. að búa til aukin verðmæti úr ungviðinu. Í öðru lagi vegna kynbótastarfsins þ.e. að fá upplýsingar um hæfileika hrossanna, og í þriðja lagi til gamans. Megin markmiðið er jú að búa til reiðhross.

Grunndvallaratriði/viðhorf:
- að þykja vænt um hesta
- að vinna traust
- ef þú vinnur huga hestsins á þitt band þá fylgir líkaminn með
- ávinna sér leiðtogahlutverkið
- leitast við að gera kynni hestsins af manningum (tamninguna) sem jákvæðasta (bærilegasta) fyrir hestinn
- að stilla aðstæðum þannig upp að hesturinn velji það sem maðurinn vill, þá verður vilji hestsins vilji mannsins.
Til eru margar aðferðir og vinnubrögð við tamningar en við val á aðferðum er gott að hafa í huga:
a) að velja leiðir sem eru jákvæðar fyrir hestinn til framtíðar
b) að velja leiðir sem eru áhættu litlar fyrir mann og hest
c) að hafa góða aðstöðu
d) að velja leiðir sem almennt eru viðurkenndar sem góð framkoma við dýr

Lengi býr að fyrstu gerð.
Æskilegt er að þeir sem leggja fyrir sig frumtamningar hafi lært eitthvað til þess arna þ.e. bæði atferlisfræði hesta og vinnubrögð. Því meiri reynsla, því betra. Óvitar eiga ekki að reyna að kenna óvitum.

Skipta má frumtamningaferlinu í tvo flokka.
- Fortamningar (leikskóli): Það sem gert er fyrsta, annað og þriðja árið.
- Frumtamningar (barnaskóli): Ca. 3 mánaða tímabil þar sem hin eiginlega reiðþjálfun hefst, oftast á fjórða og fimmta aldursári hestsins.

Fortamning – 1. ár (t.d við þriggja mánaða aldur):
1. dagur: Vinaleg snerting í návist móðurinnar t.d í stíu.
2. dagur: Ein í stíu og vinaleg snerting. Stían það rúmgóð að folaldið/tryppið geti farið í kringum manninn.
3. dagur: Eins og dagur tvö, tryppið geti farið kringum manninn, ca. þrjú skipti.
4. dagur: Getur endað á múl þar sem tryppið er hreyft lítillega til hliðanna í frekar þröngu rými, t.d. stórri stíu.
Þetta ferli tekur ca. 3 klst í heildina.

Fortamningar – 2. ár (t.d. við 17 mán. aldur):
1. dagur: Upprifjun á því sem á undan er komið.
2. dagur: Laus í hringgerði, múll á úr stíunni.
3. dagur: Eins og dagur tvö. Taumur á, snúa í kringum sig. Leiðtogaæfing. Gjörð á, binda á gúmmíkarl, kemba fætur og tagl.
4. dagur: Sama og dagur þrjú nema “fylgjan” kemur til viðbótar. Teyma í hringgerðinu.
5. dagur: Allt sem áður er komið jafnvel teymt á stærra svæði.
Þetta ferli tekur ca. 3 klst í heildina.

Æskileg aðstaða:
- Hringgerði 12-16m. í þvermál.
- Bandmúll og 6m. langur taumur.
- “Fylgjan” – búnaður sem kemur utan um tryppið og kemur í veg fyrir átak á hnakkann við teymingar,

Fortamningar – 3. ár (t.d. við ca. 30 mán. aldur):
1. dagur: Laus í hringgerði (múll á úr stíunni).
- Leiðtogaæfingar, vinsemd/virðing.
- Fylgjan.
- Teyma.
- Binda, kemba, fætur upp, tagl upp.
2. dagur: Unnið í hringgerðinu.
- Leiðtogaæfingar.
- Hnakkur með engu á.
- Beisli, undir bandmúlinn.
- Binda, kemba o.s.frv.
3. dagur: Sama og dagur tvö.
- Utan á hringgerði
- Teyma (ganga) við hlið
- Með hnakkinn + beislið
- Binda, kemba o.s.frv.
4. dagur: Sama og dagur þrjú.

Æskileg aðstaða:
- Hringgerði, inniaðstaða eða gott gerði

Þetta tekur ca 3 klukkustundir.

Ef allt er eðlilegt er tryppið vel undirbúið og í stakk búið til að takast á við frumtamninguna þ.e. hina eiginlegu reiðþjálfun sem hefst oft við 40 mán. aldur eða síðar.
Þetta ferli hefur þá tekið um 9 - 10 klukkustundir á 3 árum, ca. fjóra daga í senn.

Svona vinnufyrirkomulag er alltaf í sífelldri endurskoðun, því ef betri leiðir eða vinnubrögð finnast eru þau umsvifalaust tekinn upp og mun ég reyna að uppfæra það hverju sinni.

September 2006
Anton Páll Níelsson
Höfundur er reiðkennari B og starfandi reiðkennari við Hólaskóla.