Pistlar og aðsendar greinar

Hvað gerir Félag Tamingamanna fyrir þig

Stundum getur hið augljósa farið framhjá mönnum, og það sem er hluti af daglegu lífi orðið kannski of sjálfsagt.

 

Er stjórn FT gerði átak í því að ná inn ógreiddum félagsgjöldum í lok síðasta árs, skiptu stjórnarmenn með sér nafnalista, settust niður og hófu hringingar. Maður á mann er oft besta leiðin , fyrir utan það að með þessum hætti komust stjórnarmenn í beint samband við skuldarana og fengu að heyra ástæðuna fyrir óreiðunni.

 

Sumir höfðu flutt sig um set án þess að gera breytingu á heimilisfangi í félagatalinu. Einhverjir höfðu einfaldlega verið kærulausir en gerðu allt upp eftir samtal við stjórnarmeðlimi.

 

Hvað gerir FT fyrir mig” spurðu nokkrir?

 

Sú vitneskja að einhverjir séu ekki með það á hreinu kallar á þessi skrif.

 

Enginn, hvorki menntaður né ómenntaður er settur uppvið vegg eins og að hann eða hún sé skyldug til að vera félagsmaður í FT, þótt viðkomandi sé útskrifaður reiðkennari eða hefur haft atvinnu af tamningum árum saman.

 

Félag tamningamanna er ekki stéttarfélag í þess orðs fyllstu merkingu. Hins vegar er FT hagsmunafélag sinna félagsmanna á marga vegu.

 

Samstarf Hólaskóla og FT hefur orðið til þess að gífurlegar framfarir hafa átt sér stað í menntun reiðkennara og tamningafólks og má greinilega sjá áhrif þessara framfara á reiðmennsku almennt. Með því að vera félagi í FT getur metnaðarfullur og áhugasamur félagi haft áhrif á gang mála, tekið þátt í þróuninni.

 

 

Námið við Hólaskóla nýtur mikillar virðingar um allan heim Íslenska hestsins en að sjálfsögðu er sett sama sem merki milli Hólaskóla og FT. Þannig má segja að markaðslega sé sterkur leikur að vera á félagatali FT. Þessi áhrif námsins eiga eftir að aukast er frá líður. Nú komum við að því sem mest áríðandi er en það er að þegar að kemur að vali hins almenna hestamanns, hestabús eða hestamannafélaga á hvort sem er tamningamanni eða reiðkennara, mun færni alltaf ráða ferðinni. Það er einfaldlega markaðslögmál. Þarna stendur félagi í FT vel að vígi, nýti hann sér allt það sem félagið hefur uppá að bjóða.
Þróunin sem áður er minnst á hefur mikil áhrif á allt umhverfið. Hún eykur metnað allra reiðmanna ekki bara atvinnufólks , heldur einnig frístundareiðmanna.
Hestasport er einfaldlega eins og allt annað sport að því leiti að allir vilja verða betri en þeir eru, ná framförum. Það markmið næst helst með því að læra meira og síðan þjálfa sig og hest sinn. Þetta þýðir einfaldlega að allir þeir sem vilja sækja sér aukna leikni og getu, munu gera auknar kröfur til kennara sinna. Þeir munu í auknum mæli leita til viðurkennds fagfólks með sín vandamál.

 

Að einu leiti er hestasport alls ekki samanburðarhæft við annað sport en það er að hestaíþróttamaðurinn er aðeins meira háður aðstæðum við iðkun sports síns, vegna þess að tveir vinna saman, knapinn og hesturinn. Þetta kallar á að allir reiðkennarar og þjálfarar séu faglært fólk.

 

Nú er Hólaskóli að verða háskóli og menntun reiðkennara og tamningamanna því að verða orðið háskólanám. Það þarf að leita víða til að finna nám í hestamennsku sem hægt er að setja við hliðina á því sem hér er boðið uppá, sé það nokkurstaðar til. Allavega í Íslands hestaheiminum er ekkert sambærilegt í boði nokkurstaðar.

 

Endurmenntun í hverskonar mynd styrkir atvinnurekstur í samkeppninni og það ætti að verða fólki í þessari stétt ekkert sýður en í öðrum stéttum til framdráttar þegar vitnast að það er að skerpa sýnina og leita sér nýrra hugmynda með því að sækja þau námskeið sem í boði eru.

 

Við erum nýbúnir að halda 2 feikna öflugar endurmenntunar ráðstefnur , annarsvegar um for og frumtamningar haldin í Ölfushöllinni og á Hólum og hinsvegar í Glaðheimum í Kópavogi ráðstefnu þar sem meðal annars var fjallað um framhaldsþjálfun. Þessi námskeið voru ókeypis og opin öllum. Þau voru öll vel sótt, en því miður of lítið af FT fólki.

 

Önnur námskeið sem FT býður félagsmönnum sínum, tengjast starfinu á annan hátt. Boðið verður uppá námskeið um stofnun og rekstur smáfyrirtækja, tungumálanámskeið eru handan við hornið og ýmislegt fleira. Reynt er að ná góðum samningum við þau fyrirtæki sem selja svona þjónustu. Þetta starf er að hefjast en nokkrir félagar fóru á námskeið í tölvuvinnslu. Námskeiðið er 12 kennslustundir skift niður á 4 kvöld. Þetta námskeið kostar á fullu verði 24.000.- krónur en tilboð til FT félaga færði þeim námskeiðið á Kr.15.000.- Munurinn þarna er 9.000.- Kr. eða 1.000.- krónum hærri en félagsgjaldið.

 

Búið er að kynna heimasíðuna okkar víða og eru komnir linkar inn á hana á heimasíðum margra samtaka um Íslenska hestinn. Ennfremur er í undirbúningi að birta af og til einsdálks auglýsingu í tímaritum víða í Evrópu sem hönnuð verður til þess að kynna heimasíðu FT með það fyrir augum að leiða fólk inná félagatalið. Standandi auglýsing eins og boðið er uppá í félagatalinu myndi kosta þó nokkuð væri hún keypt af einhverjum fréttamiðlinum. Félag tamningamanna býður skuldlausum félögum þessar auglýsingar ókeypis. Um er að ræða upplýsingar um starfsemi sem viðkomandi stundar, ræktun stóðhesta, reiðkennslu, söluhross og hægt er að hafa 3 myndir með textanum. Allt sem þarf er að senda textann hólfaðan niður eftir efnisflokkum og myndir á skrifstofu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Svona lítur starfið út í augnablikinu, en stjórn er opin fyrir hugmyndum og hafi einhver eitthvað til málanna að leggja eða fyrirspurnir, sendið þá tölvupóst á skrifstofuna. Þaðan berst pósturinn síðan áfram til einhvers sem svarar.

 

Að þessu lesnu viljum við nú biðja þig lesandi góður að spyrja spurningarinnar aftur:

 

Hvað gerir Félag tamningamanna fyrir mig?
Bergur Jónsson formaður FT

Innskráning

Heimasíður félagsmanna

Vantar þig kennslu, þjálfun eða faglegar leiðbeiningar?
Smelltu hér til að fá upplýsingar um félagsmenn FT í þinni heimabyggð

RSS fréttir frá LM

Október 22 2021

RSS fréttir frá LH

Október 22 2021