Pistlar og aðsendar greinar

Daglegt líf við hrossabraut Hólaskóla

Við Hólaskóla harka daganna langa FT félagar framtíðarinnar í námi sem eingöngu snýst um hross og ýmsu þeim tengdu. Umfang námsins er mikið og dagarnir drjúg langir. Hægt er að sjá stundarskrár 1. og 2. árs nema á heimasíðu Hólaskóla ( www.holar.is ) til frekari glöggvunar.


Verkleg kennsla skipar stóran sess í náminu enda nauðsynleg til þess að nemendur verði betri knapar. Fyrsta námsárið ber nafnið Hestafræðingur og leiðbeinandi en annað árið Tamningamaður.

Alls stunda nú 50 nemendur nám á fyrsta og öðru ári við hrossabraut Hólaskóla.

Hestafræðingur og leiðbeinandi

Á haustönn hefst kennsla í landmati, atferlisfræði, hófhirðu og járningum, reiðmennsku og erfðarfræði. Mikil áhersla er í upphafi á atferlisfræði og bóklega reiðmennsku. Einnig kemur saga hestsins inn frekar snemma og skarast þessir þrír áfangar á skemmtilegan hátt því í reiðmennskunni verður að ganga út frá eðli hestsins og uppruna til að skilja hann. Síðar á önninni hefjast áfangar eins og líffæra- og lífeðlisfræði, skyndihjálp, kennslufræði, kynbótafræði og fóðurfræði.
Reiðmennska er langstærsti áfanginn, og samanstendur hann af bóklegri og verklegri kennslu. Á haustönn eru að meðaltali eru fjórir verklegir og bóklegir tímar í reiðmennsku í viku, en verklegi þátturinn stækkar hlutfallslega eftir áramót.


Reiðkennararnir á fyrsta ári eru margir og er í kennaraliðinu meðal annars 30 skólahestar. Hestarnir eru flestir fæddir og menntaðir á Hólum. Hafa þeir verið frumtamdir og þjálfaðir af nemendum og kennurum skólans og eru í rauninni notaðir sem kennslugögn. Það er metnaður skólans að vera með vel þjálfaða og góða skólahesta og hafa margir af skólahestunum staðið sig vel í keppni og sýningum hjá reiðkennurunum.
Í Reiðmennsku I er knapinn í forgrunni og hver nemandi settur undir smásjá. Hver og einn nemandi getur einbeitt sér að sjálfum sér og að bæta sig sem knapi.  Sætisæfingar eru notaðar mikið í þeim tilgangi, þar sem hringteymt er undir knapanum. Knapinn getur því einbeitt sér að ásetunni og gert einskonar fimiæfingar fyrir knapa til að bæta jafnvægi, sveigjanleika og næmni.
Nemendur læra um fimiþjálfun og læra bæði liðkandi og safnandi æfingar eins og framfótasnúning, krossgang og opinn og lokaðan sniðgang. Verklega prófið í Reiðmennsku I samanstendur m.a. af þessum fimiæfingum. Ríða skal, brokk og stökk í mismunandi ásetu á mismunandi reiðleiðum, gangskiptingar fet-tölt og hraðabreytingar á tölti.


Á vorönn hefst Reiðmennska II sem einnig er kennd á skólahestum. Þar er lögð meiri áhersla á stjórn knapans á formi hestsins, safnandi æfingar, fimiæfingar á tölti o.s.frv.
Á vorönn byrjar áfanginn, Reiðmennska III, í honum þjálfa nemendur sinn eigin hest.. Þar lærir nemandinn um þjálfun og uppbyggingu reiðhests. Markmiðið er að nemandinn lærir hvernig ber að þjálfa reiðhest þannig að hann verði þjáll, næmur, í andlegu jafnvægi, sterkur og endingargóður. Þau læra að bæta jafnvægi hestsins og þar með hreyfingar og gangtegundir. Lokapróf í Reiðmennsku III er gæðingafimi, þar sem nemandinn á að sýna hversu vel þjálfaður hesturinn er. Áhersla er á næmni og léttleika í reiðmennsku og svörun frá hestinum auk hreinleika, mýktar og gæði gangtegunda.
Hirðingar er áfangi sem teygir sig yfir allt árið, og taka nemendur þátt í að hirða hestana sem þau nota, þ.e. nemendahestana og skólahestana. Þau læra að fóðra rétt, meta fóðurástand hestsins og einnig grunnatriði í girðingavinnu. Það gefur auga leið að þessir þættir eru nauðsynlegir fyrir fólk sem ætlar að starfa í atvinnugreininni sem og að vera hagnýtt nám fyrir alla sem stunda vilja hestamennsku.
Reiðkennsla er kennd á vorönn. Nemendur æfa sig að stjórna hóp á reiðvelli og halda námskeið fyrir krakka frá grunnskólunum í héraðinu sem og annað fólk. Nemendurnir læra að skipuleggja og útfæra verklega og bóklega kennslu og fá þau leiðbeinandaréttindi, þ.e. réttindi til að kenna fyrstu þrjú knapamerkjastigin.

 

Tamningamaður


21 nemandi stundar nám á öðru ári við skólann, þar sem megin þungi kennslunnar eru á frumtamningum og framhaldsþjálfun hesta.
Eftirfarandi áfangar eru kenndir á öðru ári: frumtamningar, þjálfunarhestar, járningar, þjálfunarlífeðlisfræði og heimildarritgerð.
Frumtamningar
Hver nemandi temur 2 tryppi sem skólinn úthlutar þeim. Skólinn sjálfur á aðeins 6 tryppi á tamningaraldri, þannig að tryppin koma annarsstaðar frá. Mikil ásókn er í að koma tryppum í tamninguna og reynt er að taka eitt hross af hverjum ræktanda.
Þær kröfur sem gerðar eru til tryppanna eru þær að þau séu að minnsta kosti á fjórða vetri, vel framgengin og öflug. Þau eiga að vera bandvön og undan fyrstu verðlauna hestum. Sífellt erfiðara er að fá tryppi á 5. vetri sem bendir til þess að tamningar hefjast almennt þegar tryppin eru á 4. vetri. Alls koma um 40 tryppi til tamninga að Hólum sem eru um 0,7% af fjölda skráðra folaldra árið 2003. Tímabilið er u.þ.b. 11 vikur og endar á prófum og skiladegi til eiganda sem verður 9. desember í ár.

Þjálfunarhestar


Hver nemandi þjálfar tvö hross og spannar þjálfunartímabilið u.þ.b. 8 vikur. Þar glíma nemendur við ólík verkefni framhaldsþjálfunar og fá þjálfun í notkun hinna ýmsa þjálfunaraðferða. Fæstar af þeim aðferðum sem nemendur læra að beita við þjálfunina eru nýjar fyrir þeim heldur er um að ræða æfingar og aðferðir sem þau notuðu á fyrsta námsári sínu við skólann. Áfanginn snýst því fyrst og fremst um að ná góðu valdi á þeirri tækni og aðferðum sem kenndar eru við skólann. Kennslan miðast einnig að því að gera nemendur sjálfstæðari í vinnubrögðum. Hestar eru misjafnir eins og þeir eru margir og því þurfa þau að spreyta sig á að meta hvern og einn hest. Þá þarf að meta hvar hver og einn hestur er staddur og forgangsraða þeim markmiðum sem þau stefna á að ná. Meginþungi kennslunnar snýst um að nemendur læri að þjálfa hestana skipulega. Lögð er áhersla á góða grunnþjálfun fyrir alla hestana, en góð grunnþjálfun skapar auknar forsendur til þess að eðliskostir hestsins nýtist sem best sem og að hann muni endast vel sem góður reiðhestur alla sína ævi.
Hrossin sem eru notuð eru eiga að vera frumtamin þ.e. að minnsta kosti 3 mánaða taminn.

 

Þessa stundina


Nemendur á öðru ári eru að leggja loka hönd á mikla heimildarritgerð. Efnistök velja þau sjálf en ritgerðin má vera um allt sem við kemur þjálfun og reiðmennsku hestsins. Margar áhugaverðar ritgerðir hafa litið dagsins ljós og væri gaman ef nemendur Hólaskóla kæmu þessum ritgerðum á framfæri t.d. með því að birta þær á þar til gerðu svæði á heimasíðu skólans. Einnig myndu margar sóma sér vel í hestatímaritum.

 

 

Innskráning

Heimasíður félagsmanna

Vantar þig kennslu, þjálfun eða faglegar leiðbeiningar?
Smelltu hér til að fá upplýsingar um félagsmenn FT í þinni heimabyggð

RSS fréttir frá LM

Október 22 2021

RSS fréttir frá LH

Október 22 2021