Pistlar og aðsendar greinar

Erindi um FT fyrr og nú

Félag tamningamanna var stofnað árið 1970, af nokkrum ofurhugum innan hestamennskunnar. Þessa ungu menn langaði á þeim tíma að læra meira um fagið sem þeir stunduðu þá af kappi,  tamningar hrossa fyrir bændur úti um landið og fyrir hestamenn í þéttbýlinu.


Á þessum fyrstu árum, voru tamningamenn algjörlega sjálfmenntaðir, en gátu gengið til liðs við FT með því að þreyta sérstakt reiðmennskupróf, sem byggðist á fimiæfingum B, og gangtegunda prófi, og síðan var fræðileg þekking þeirra prófuð með munnlegum spurningum.
Seinna breyttust þessi próf, og til varð Frumtamningapróf, sem enn í dag er fyrirmynd að frumtamningaprófi því sem nemendur Hólaskóla þreyta, en að sjálfsögðu hefur prófið þróast eins og allt annað í reiðmennskunni.


Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, og margt hefur gerst í heimi Íslandshestamennskunnar.
Eitt hefur haldist óbreytt alveg frá stofnun FT, en það er sá kafli laga og reglna félagsins sem tekur á markmiði og tilgangi FT, en það er að bæta tamningu þjálfun og alla meðhöndlun Íslenska hestsins af fremsta megni.


Það var árið 1996 sem samstarf varð á milli Hólaskóla og FT . Þetta samstarf var strax mjög mikilvægt fyrir báða aðila. Hólaskóli þurfti að styrkja starfsvettvang sinn, og FT þurfti að færa menntamálin í farveg sem alls ekki var á færi svo lítils og veikburða félags sem FT var þá.


Á þessari ráðstefnu sem þið sitjið einmitt núna hér á Hólum, upplifið þið hvernig námið er byggt upp, og hverjar áherslur þess eru.


Í dag heldur FT utanum félagatal sem telur á fjórða hundrað meðlimi, á hinum ýmsu stigum og menntagráðum.
Starfið undanfarin ár hefur snúist mikið um menntamálin, og síðan um að styrkja stöðu FT í félagskerfi hestamanna á Íslandi.
Nú eru hinsvegar í farveginum verkefni sem snúa meira að innviðum félagsins, og hagsmunum félagsmanna.


Verið er að hanna og gera starfhæft endurmenntunarkerfi svo að félagsmenn njóti tækifæra til þess bæði að uppfæra þekkingu sína í takt við þróun þá sem alltaf á sér stað í faginu, og til þess að afla sér nýrra hugmynda sem síðan munu auka starfsfærni viðkomandi. Til þess að uppfylla þetta, munu verða haldin námskeið af reynslumiklum reiðkennurum FT, en einnig mun félagið leita til utankomandi reiðmanna að halda námskeið fyrir félagsmenn.
Í endurmenntunarkerfinu er einnig gert ráð fyrir námskeiðum sem varða aðra hluti en fagið sjálft, en eru nauðsinlegur þáttur í daglegu starfi allra sem standa að atvinnu og eða búrekstri. Þar má nefna tölvu námskeið, bókhalds námskeið, námskeið um stofnun og rekstur smáfyrirtækja, og námskeið í markaðsfræðum.


Ennfremur munu reiðkennarar geta sótt tungumálanámskeið, og námskeið í kennslufræðum.
Félagið er nú að leita leiða til þess að koma á laggirnar endurmenntunar-sjóði, sem hægt verður að nota til þess að niðurgreiða námskeið fyrir félagsmenn.
Önnur verkefni í náinni framtíð tengjast samstarfi við aðra aðila í greininni, en á Landsmótinu í sumar, var undirritaður samningur milli FT, Félags hrossabænda, Hólaskóla, Söguseturs Íslenska hestsins, og bændasamtakanna eða World Fengs, um sameiginlegt markaðsátaks sem hlaut nafnið Hestatorg (Icelandic horse Plaza)
Hestatorgið var sett upp á LM, og fékk góðar undirtektir. Reynt var að framkalla notalega kaffihúsa stemningu, og dagskráin var gerð lifandi og skemmtileg með hinum ýmsu uppákomum. Meðal annars héldu þrír þjálfarar FT fyrirlestra um sína filosofiu í starfinu með hestinn. Fyrirlestrar þessir fengu góðar viðtökur, og á þeim síðasta var troðfullt hús, og áheyrendur höfðu fullt af spurningum að fyrirlestrinum loknum.
Með þessa reynslu í farteskinu, varð okkur enn ljósari þörfin á samskiftum bæði innan þjálfarastéttarinnar, sem og við hinn almenna hestamann.Flestir hestamenn hafa nefninlega sama áhugamálið, en það er að ná betri tökum á þessum heillandi hesti, sem þrátt fyrir smæð sína, og frábært geðslag er alls ekki einfalt verkefni. Það eru ekki til mörg hestakyn í heiminum sem jafn miklar kröfur eru gerðar til. Söfnun á vinnuhraða og yfirferð flugvakurs hests, allt í einum og sama gripnum, og nánast á sama augnablikinu.
Fyrir dyrum er að fara með hestatorgið á Heimsmeistaramótið í Hollandi næsta sumar, og verður mjög spennandi að sjá hvaða viðtökur þetta framlag fær þar. Vonumst við til þess að hitta ykkur öll þar yfir kaffibolla og spjalli.


Fyrir dyrum er náið samstarf FT og Félags hrossabænda, en eðlilega eiga þessi tvö samtök að vinna öxl við öxl. Það eru þessi tvö samtök sem mynda framleiðslulínuna ef svo mætti að orðum komast. Ræktendurnir framleiða hestinn, og þjálfararnir undirbúa hann fyrir markaðinn. Síðan undirbúa reiðkennararnir markaðinn og kenna fólki fyrst að njóta hestsins, og seinna að gera meiri kröfur bæði til sín sjálfs,og hestsins.


Ég vil að lokum segja ykkur frá því að  Félag Tamningamanna hefur nú opnað nýja heimasíðu, en hún mun opna einnig á Ensku núna næstu daga. Á hinum nýja vef, er ýmiskonar fróðleikur, auk þess sem félagsmönnum FT og gestum er boðið uppá að skrifa stutta pistla um hugarefni sín, og það sem efst er á baugi á hverjum tíma. Á síðunni verður einnig  safnað saman fræðilegum greinum eftir félagsmenn, þannig að fróðleiksþyrstir ættu alltaf að finna eitthvað spennandi að lesa og skoða.


Félagatal FT verður birt með nýstárlegum hætti á nýju heimasíðunni, þannig að velji gestur nafn einhvers , munu birtast myndskreyttar upplýsingar um viðkomandi, starfsemi hans og hross. Þannig má sjá að hin nýja heimasíða FT verður rétti vettvangurinn til þess að sjá hverjir eru lærðir fagmenn, og til þess að velja sér samstarfsaðila og reiðkennara.

Slóðin er: tamningamenn.is
Að lokum: séu einhverjir með einhverjar spurningar, gerið svo vel.

Innskráning

Heimasíður félagsmanna

Vantar þig kennslu, þjálfun eða faglegar leiðbeiningar?
Smelltu hér til að fá upplýsingar um félagsmenn FT í þinni heimabyggð

RSS fréttir frá LM

Október 22 2021

RSS fréttir frá LH

Október 22 2021