Pistlar og aðsendar greinar

Hestar og Flugeldar höf. Trausti Þór Guðmundsson

Það slys sem varð á Vesturlandsvegi við Mosfellsbæ, vakti margan hestamanninn til umhugsunar.

Það er vissulega alvarlegt mál þegar hestar sleppa úr hólfum sínum, og hlaupa útá fjölfarna vegi, þar sem umferðin er hröð og mikil. Svona ástand skapar mikla hættu fyrir vegfarendur, og er að sjálfsögðu hálfgerður dauðadómur á viðkomandi hross.

Eftir slysið í Mosfellsbænum var talið að flugeldasýning í Reykjavík hefði verið orsökin fyrir því að hrossin fældust útá veg. Einhverjir efast um að hross fælist flugelda sem skotið er upp svo langt í burtu, og vilja finna einhverja aðra orsök.

Undirritaður býr í Ölfusinu, mitt á milli Hveragerðis og Selfoss. 

Helgina 25-26.08 voru haldnir hinir árlegu Blómadagar í Hveragerði. Á Laugardagskvöldið endaði hátíðin með flugeldasýningu, en í ljósi nýliðinna atburða í Mosfellsbæ, hafði ég smá áhyggjur af því hvort stóðið mundi fælast, og hlaupa á girðingarnar. Það eru nálægt 7 km héðan til Hveragerðis, en sést vel á milli, og því ákvað ég að vera úti í högunum þegar lætin hæfust. Ég hellti úr brauðpoka á jörðina til þess að dreifa athygli hrossanna.

Á slaginu 10 stóð ég í miðjum hópnum, þegar fyrstu skotin dundu. Það var eins og við manninn mælt, hrossin reistu höfuðið öll sem eitt, hættu að tyggja, litu í vesturátt, og Bingó.

Allur hópurinn rauk af stað með þvílíkum látum að var líkara kappreiðum en nokkru öðru. Þau hlupu hring eftir hring um hólfið sem þau voru í, stoppuðu af og til, til þess að hlusta, og þustu svo aftur af stað.
Reyndar fóru þau ekki í gegnum girðingar í þetta sinn, en það hafa þó flestir hrossabændur upplifað einhvern tímann þegar flugeldum er skotið í miklu magni eins og á áramótum t.d.

Flugeldasýningar og notkun flugelda til hátíðahalda eru hluti af tilveru okkar, og ekkert mun breyta því. Við hrossa eigendur verðum því að gera viðeigandi ráðstafanir, teljum við hrossin okkar vera á áhættusvæði varðandi þetta.

Til sveita í byggðalögum þar sem hrossaeign er mikil og almenn er sumstaðar einskonar samkomulag um að halda notkun flugelda í lágmarki. Eins er orðið algengt að menn setji hrossin inn eða í eitthvert aðhald eins og gerði eða minni hólf til að koma í veg fyrir óhöpp af þessu tagi. Ljós í hesthúsunum og hávær músik hjálpa líka til.

Við skulum vera á verði þegar mikið liggur við. Gerum allt sem við getum til þess að forðast það að hrossin okkar hlaupi stjórnlaust út á veg, og skapi þannig hættu fyrir vegfarendur. Það getur líka orðið til þess að við missum uppáhalds gripi, eins og einmitt skeði í Mosfellsbænum. Þar missti ung hestastelpa uppáhalds hestinn sinn. Hest sem hún hafði verið að keppa á í nokkur ár í barnaflokki, og síðan í unglingaflokki.

Verum á verði.

Innskráning

Heimasíður félagsmanna

Vantar þig kennslu, þjálfun eða faglegar leiðbeiningar?
Smelltu hér til að fá upplýsingar um félagsmenn FT í þinni heimabyggð

RSS fréttir frá LM

Október 22 2021

RSS fréttir frá LH

Október 22 2021