Pistlar og aðsendar greinar

Áhrif Hólanámsins höf. Trausti Þór Guðmundsson

Nú eru liðið vel á annan áratug síðan menntun tamningamanna og reiðkennara hófst á Hólaskóla. Mikil þróun hefur átt sér stað varðandi námið allt, og námsefni, og kennsluaðferðir hafa tekið breytingum. Áherslur hafa einnig breyst eitthvað, og nýjar hugmyndir haft mikil áhrif. Markmiðið er samt að sjálfsögðu óbreytt, eða að búa nemendur skólans eins vel og kostur er undir það að starfa með hestinn og geta síðan miðlað af sinni reynslu og kunnáttu til annarra. 
Breidd nemenda er að sjálfsögðu mikil, einhverjir koma á skólann af forvitni, eða óráðnir í því hvað þeir í raun vilja, en svoleiðis nemendur koma í alla skóla. Sumir af þessum fara að námi loknu að starfa með hesta, en aðrir ekki. Mikið af mjög áhugasömu fólki fer á skólann, staðráðið í því að framtíð þess liggi í starfi tengt hestum.
Bakgrunnur fólks er misjafn Sumir eru nánast fæddir á hestbaki eins og stundum er sagt. Hafa frá bernsku haf aðgang að úrvals hrossum, og Tölt og Skeið eitthvað sem bara fylgdi með móðurmjólkinni.
Aðrir verða að hafa meira fyrir hlutunum, hafa jafnvel alist upp í hestlausum fjölskyldum, samt hneigst snemma að hestum, og einhvern veginn bjargað sér.
Á skólanum lærir þetta fólk alltsaman ákveðna aðferðafræði. Hvernig á að ná settu marki. Læra að nota þjálfunarstigin rétt, og að gera sýnileg þau hugtök sem notuð eru yfir hin ýmsu stig þjálfunar, og síðan hvernig á að miðla af kunnáttu sinni.
Þrátt fyrir mismikla getu útskrifaðra nemenda frá Hólaskóla, má sjá ákveðinn samnefnara milli þeirra. Það er eitthvað sem einkennir menntaðan reiðmann sem birtist í því að hægt er að staðsetja hestinn hans á einhverjum ákveðnum stað í þjálfuninni. Hvernig síðan viðkomandi tekst að klára dæmið er síðan einstaklingsbundið, og tengist fyrri reynslu og meðfæddum hæfileikum að einhverju leiti.
Menntaðir toppreiðmenn eru nú að líta dagsins ljós í auknum mæli, en það er mjög áríðandi fyrir þróun reiðmennskunnar að umhverfið taki þeim vel, og að þeir uppskeri fyrir rétta og vandaða reiðmennsku.
Þegar þeir reiðmenn sem áhuga hafa á keppni allskonar og sýningum fara að sjá oft í efstu sætum menntaða reiðmenn, sem hafa tileinkað sér það að reyna eftir fremsta megni að uppfylla þau hugtök sem felast í réttri þjálfun og uppbyggingu hesta, og hafa náð árangrinum vegna skipulegrar þjálfunar á löngum tíma, langar hina að sjálfsögðu til að ná svipuðum árangri, og fara þá að leita aðstoðar hinna menntaðri.
Þessi hópur er alltaf að stækka, og sá maður greinileg merki þess á nýafstöðnu Landsmóti. Það sem fyrir nokkrum árum síðan var stirt, og viðvaningslegt, var allt í einu núna létt, og það sem áður var aðeins á fárra færi, var núna algengara.
Reiðmennirnir eru margir hverjir að þróa sig, eru í framför, en það krefst þess að dómarar einnig fylgist með. Það gera margir þeirra vafalítið, en eins og reiðmennirnir, ekki allir.

Innskráning

Heimasíður félagsmanna

Vantar þig kennslu, þjálfun eða faglegar leiðbeiningar?
Smelltu hér til að fá upplýsingar um félagsmenn FT í þinni heimabyggð

RSS fréttir frá LM

Október 22 2021

RSS fréttir frá LH

Október 22 2021