Lög Félags tamningamanna (FT)

I. kafli. Skipulag.


1. gr.

Nafn-heimili-aðild.

1.1        Félagið heitir FÉLAG TAMNINGAMANNA skammstafað FT.  Heimili og varnarþing Félagsins er í Reykjavík.

1.2        Á Íslandi starfa tvær deildir og skipar stjórn FT félagsmönnum í deildir.

1.3        Hægt er að stofna deildir utan Íslands, eina í hverju landi.

1.4        Deildir á Íslandi og erlendis starfa í umboði og nánu samstarfi við stjórn FT.

1.5        Skilgreining á starfsemi deilda er sett í reglugerð sem þarf staðfestingu aðalfundar félagsins.

1.6        Allir sem lokið hafa prófgráðunni "Hestafræðingur og leiðbeinandi" og/eða lokið "Tamningaprófi FT" samanber reglugerð FT þar um geta orðið félagsmenn í FT.

 

 

2. gr.

Tilgangur og markmið.

2.1        Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að réttri og góðri tamningu hesta.

 

 

Þessu markmiði hyggst félagið ná með því að:

a)  Vinna að eflingu menntunar tamningamanna.

b)  Vinna að eflingu menntunar reiðkennara.

c)   Leiðbeina hestamönnum.

d)  Standa fyrir prófum fyrir tamningamenn og reiðkennara.

 

 

2.2    Önnur markmið eru m.a.:

§  Að hafa yfirstjórn og vinna að eflingu faglegrar vinnu tamningamanna m.a. með fræðslu, útbreiðslu- og kynningarstarfsemi.

§  Að vera málsvari tamningamanna og reiðkennara jafnt innanlands sem utan.

§  Að eiga samstarf við önnur samtök er sinna hagsmunamálum hestamanna.

§  Að stuðla að bættum hag félagsmanna.

 

 

2.3     Nánari skilgreining um tilgang og markmið verði sett í reglugerðum er hljóta staðfestingu aðalfundar.

 

 

II. kafli.  Stjórnun.

 

 

3. gr.

Stjórnunaraðilar.

3.1     Málefnum FT  er stjórnað af aðalfundi FT og stjórn félagsins á milli aðalfunda.

 

 

4. gr.

Aðalfundur.

4.1        Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum FT.

 

 

4.2     Aðalfundurinn skal haldinn í desember ár hvert. Fundurinn skal boðaður á tryggilegan máta með minnst fjögurra vikna fyrirvara.

 

 

4.3     Málefni sem félagsmenn óska að tekin verði fyrir á aðalfundi, skulu tilkynnt stjórn FT minnst tveimur vikum fyrir aðalfund. Þá skal stjórn FT tilkynna félagsmönnum dagskrá aðalfundarins ásamt tillögum og lagabreytingum sem borist hafa í síðasta lagi 10 dögum fyrir aðalfund á heimasíðu félagsins.

 

 

4.4    Aðalfundur er lögmætur ef löglega hefur verið til hans boðað.

 

 

 

 

5. gr.

Atkvæðisréttur og atkvæðagreiðsla á aðalfundi.

5.1     Á aðalfundi hafa skuldlausir félagsmenn atkvæðisrétt. Hver félagsmaður hefur aðeins eitt atkvæði. Auk skuldlausra félagsmanna eiga rétt á fundarsetu og hafa málfrelsi og tillögurétt:

 

 

a)      Framkvæmdastjóri, endurskoðandi og skoðunarmenn.

 

5.2     Auk þess getur stjórn FT boðið öðrum aðilum til fundarins ef hún telur ástæðu til.

 

 

5.3     Fái fleiri en þeir, sem kjósa á, jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.

 

 

5.4     Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingu sé að ræða; þá þarf 2/3 hluta atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra félagsmanna. Fundurinn getur með 2/3 hluta atkvæða leyft að taka fyrir mál önnur en lagabreytingar sem komið hafa fram eftir að dagskrá var send félagsmönnum.

 

 

6. gr.

Dagskrá aðalfundar.

6.1        Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

 

 

1.   Setning.

2.   Kjör fundarstjóra og ritara.

3.   Kjör starfsnefnda fyrir fundinn.

4.   Skýrsla stjórnar og deilda.

5.   Lagðir fram reikningar félagsins til samþykktar. Skulu reikningarnir settir upp og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og áritaðir af skoðunarmönnum.

6.   Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun til samþykktar.

7.   Lagðar fram tillögur og mál sem borist hafa og þeim vísað til nefnda. Nefndir skila störfum, umræður og atkvæðagreiðsla.

8.   Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna.

9.   Önnur mál.

 

 

 

7. gr.

Aukafundur.

7.1     Aukafund skal halda þegar helmingur félagsmanna óskar þess. Boðunar- og tilkynningarfrestur til aukafundar getur verið styttri en til reglulegs aðalfundar, þó ekki skemmri en sjö daga. Að öðru leiti gilda um aukafund sömu reglur og um aðalfund.

 

 

 

 

8. gr.

Stjórn.

8.1     Stjórn félagsins skipa fimm menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, og meðstjórnandi. Stjórnarmenn eru kjörnir til tveggja ára í senn, formaður og einn stjórnarmaður annað árið og hinir þrír stjórnarmennirnir hitt árið. Á fyrsta fundi eftir aðalfund skiptir stjórn með sér verkum.
Kjörnir formenn deilda eru sjálfkjörnir varamenn í aðalstjórn. Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur yfirumsjón með framkvæmdum félagsins. Stjórnin ber ábyrgð á að framkvæma vilja félagsins eins og hann birtist í lögum þess og samþykktum.

 

 

8.2    Kjörgengir í stjórn eru allir félagar FT.

 

 

8.3        Reikningsár FT er frá 1. nóvember til 31. október næsta almanaksár.

 

 

8.4        Formaður boðar stjórnarfundi og stýrir þeim. Fulltrúar beggja deilda á Íslandi skulu boðaðir á stjórnarfundi. Stjórnarfundur er lögmætur ef formaður og tveir stjórnarmenn eru mættir. Einn fulltrúi hvorrar deildar skal boðaður og hafa þeir fullan atkvæðisrétt.

 

 

9. gr.

Starfssvið stjórnar.

9.1    Starfssvið stjórnar FT er meðal annars að:

 

 

a)              Stjórna félaginu á milli aðalfunda.

b)              Annast samskipti og samstarf við deildir félagsins.

c)              Annast samskipti og samstarf við menntastofnanir sem mennta tamningamenn og reiðkennara.

d)              Annast samskipti og samstarf við önnur félagasamtök hestamennskunnar.

e)              Koma fram gagnvart opinberum aðilum.

f)               Senda deildum fundargerðir stjórnar FT.

g)              Líta eftir því að lög og reglugerðir FT séu haldin.

h)              Stuðla að bættum hag félagsmanna.

 

 

 

 

10. gr.

Nefndir.

10.1   Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skipar stjórnin í eftirfarandi fastanefndir, sem hvor skal skipuð  þremur mönnum. Hlutverk nefndanna er að vinna með stjórninni milli aðalfunda að þeim málefnum sem hvorri nefnd tilheyrir:

a)      Menntanefnd, sem skal skipuð þremur mönnum og tveimur til vara sem eru kjörnir til eins árs í senn. Nefndina skal ávallt skipa einn meistari, einn B-reiðkennari eða meistari og fulltrúi Hólaskóla. Aðalfundur ákvarðar starfssvið nefndarinnar.

b)           Aganefnd

 

 

 

 

10.2     Auk framangreindra nefnda skipar stjórn FT kjörnefnd þriggja manna eigi síðar en 2 mánuðum fyrir aðalfund hverju sinni. Kjörnefnd hefur það hlutverk að gera tillögur til aðalfundar um fulltrúa í stjórn og nefndir.

 

 

10.3     Stjórn FT skipar fulltrúa félagsins í stjórnir og nefndir utan félagsins eftir því sem við á.

 

 

10.4     Stjórn FT setur nefndum félagsins starfsreglur.

 

 

 

 

III. kafli. Fjármál.

 

 

11.gr.

11.1  Tekjur FT eru:

1)       Félagsmenn greiða árgjald til félagsins. Fjárhæð árgjaldsins skal ákveðin á hverjum aðalfundi en innheimta þess miðast við félagatal. Gjalddagi árgjalds er 15. apríl ár hvert. Dráttarvextir skulu reiknast 30 dögum eftir gjalddaga.

2)       Fjárframlög opinberra aðila.

3)       Fjárframlög fyrirtækja, einstaklinga og stofnana.

4)       Aðrar tekjur.

11.2  Gjöld FT afmarkast af:

1)       Fjárhagsáætlun.

2)       Samþykktum stjórnar og aðalfundar.

 

 

IV. kafli.  Ýmislegt.

 

 

12. gr.

Agadómstóll

12.1   Agadómstóll er skipaður af stjórn, strax að loknum aðalfundi.  Hann skipa þrír menn, þarf að a.m.k einn löglærður. Dómstóllinn kýs  sér formann úr eigin röðum. Agadómstóllinn starfar samkvæmt lögum og reglum félagsins, en að auki dóms- og refsiákvæðum ÍSÍ eftir því sem við getur átt.

 

 

12.2   Agadómstóllinn tekur til umfjöllunar mál sem aganefndir deilda hafa tekið ákvarðanir í á grundvelli skriflegrar kæru.  Kæra skal hafa borist dómstólnum innan 4 vikna frá því að aganefnd tók ákvörðun.  Niðurstaða agadómstólsins skal liggja fyrir innan 6 vikna frá því að kæran var móttekin.  Málsmeðferð fyrir agadómstólnum er skrifleg.

 

13. gr.

Merki félagsins

13.1   Merki félagsins er bókstafirnir FT, fáni þess er blár með hvítu FT eða hvítur með bláu FT. Þeir félagsmenn einir sem lokið hafa a.m.k "Tamningaprófi FT" hafa rétt til að klæðast búningi félagsins. Búningur félagsins er blár jakki með merki félagsins á brjóstvasa, hvítar buxur, hvít skyrta, rautt bindi og rauður klútur í brjóstvasa.  Prófstig eru auðkennd með barmmerki félagsins og kraga á jakka. Frumtamningapróf með merki úr bronsi og kragi samlitur jakka.  Þjálfarapróf með merki úr silfri og kragi á jakka rauður.  Meistarapróf með merki úr gulli og kragi á jakka svartur.   Nýir félagar fái sér búning að afloknu prófi. Óheimilt er að lána félagsbúning öðrum en félagsmanni.

 

 

14. gr.

Kjör heiðursfélaga.

14.1   Heiðursfélagar geta þeir orðið sem sýnt hafa frábæran dugnað og áhuga í störfum sínum til eflingar félaginu. Stjórnin tilnefnir heiðursfélaga. Sá sem er kjörinn heiðursfélagi, skal fá það skjallega viðurkennt af stjórninni, auk merkis félagsins úr gulli. Heiðursfélagar eru undanþegnir árgjaldi, en njóta sömu réttinda og aðrir félagsmenn.

 

 

15. gr.

Að leggja félagið niður.

15.1   Tillögur um að leggja FT niður  má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi. Til þess að samþykkja þá tillögu þurfa minnst 3/4 viðstaddra atkvæðisbærra félagsmanna að greiða henni atkvæði.  Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum félagsmönnum grein fyrir henni í fundargerðinni og tillagan látin ganga til næsta reglulega aðalfundar. Verði tillagan samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja FT niður. Skal þá skipa skilanefnd sem annast uppgjör á fjármálum félagsins og annast sölu eða skiptingu eigna þess

 

Innskráning

Heimasíður félagsmanna

Vantar þig kennslu, þjálfun eða faglegar leiðbeiningar?
Smelltu hér til að fá upplýsingar um félagsmenn FT í þinni heimabyggð

RSS fréttir frá LM

September 26 2021

RSS fréttir frá LH

September 26 2021