Hestafræðingur og Leiðbeinandi


Hestafræðingur og leiðbeinandi hafi góða þekkingu á grunnfögum búfræðinnar á sviði jarðræktar, búfjárræktar og bústjórnar. Einnig sérhæfða og hagnýta þekkingu sem spannar vítt svið hrossaræktar og hestamennsku. Hann hefur öðlast verklega færni við meðferð hrossa, grunnreiðmennsku og þjálfun gangtegunda. Hestafræðingur og leiðbeinandi getur tekið þátt í fjölþættum atvinnurekstri s.s. hrossabúskap, hestaleigum/hestaferðum, byrjendakennslu í hestamennsku o.fl.

Inntökuskilyrði og búnaður vegan náms:

Inntökuskilyrði
65 einingar úr framhaldsskóla. Lágmarksaldur er 18 ár. Ef umsækjandi uppfyllir ekki áðurnefnd skilyrði er skólayfirvöldum heimilt að taka tillit til aldurs og reynslu af hestamennsku. Allir umsækjendur þurfa að þreyta inntökupróf í reiðmennsku og standast þar lágmarkskröfur til að eiga kost á inngöngu í skólann.

Inntökupróf í reiðmennsku
Prófið fer fram á skólahestum, bæði inni í reiðhöll og úti á keppnisvelli og er umsækjanda leiðbeint í gegnum það stig af stigi. Í prófinu er verið að meta grunnatriði í reiðmennsku s.s. jafnvægi, ásetu, taumhald, samhæfingu ábendinga, tilfinningu fyrir gangtegundum og stjórnun hestsins. Nemandinn þarf að ríða bauga og slöngulínur, sýna stöðvun, stytt fet og framfótarsnúning. Riðnar eru allar gangtegundir nema skeið.

Nemendahestur
Á miðri haustönn koma nemendur með eigin hest sem verður kennt á til vors. Áhersla er lögð á að nemendur vandi valið á hestinum þar sem það getur haft afgerandi áhrif á framfarir í reiðmennsku á námstímanum. Heppilegur aldur er 7-12 vetra, stóðhestar eru ekki leyfðir. Hesturinn þarf að vera heilbrigður, hraustur og laus við galla s.s. slægð, rop, hrekki, kergju eða rokur. Hann þarf að vera vel taminn, þjáll og meðfærilegur með sem allra bestar gangtegundir (skeið ekki kennt), hreinar, skrefmiklar og rúmar. Forðast skal hesta sem hafa eina eða fleiri lélegar gangtegundir þó aðrar séu góðar, mjög spennta hesta eða hesta sem eru slæmir í beisli. Reiðkennarar skólans meta hestinn og skal skila myndbandi af honum á skrifstofu skólans í síðasta lagi þegar haustönn hefst.

Búnaður
Viðurkenndur öryggisreiðhjálmur, vandaður gæðahnakkur sem stuðlar að góðri ásetu og velferð hestsins, stallmúll, beisli, mismunandi gerðir af hringamélum, stangamél, enskur og þýskur reiðmúll, langir reiðtaumar, rennitaumur, venjulegt keyri og hringtaumskeyri, hringtaumsgjörð og tvöfaldir hringtaumstaumar, hófhlífar af mismunandi gerð og þyngd, reiðföt og vinnugalli.
Athygli er vakin á því að nemendafélag skólans getur náð góðum kjörum hjá hestavöruverslunum. Ráðrúm gefst til að gera slíka verslun á fyrstu vikum skólastarfsins.

Tryggingar
Nemendum er skylt að vera tryggðir.