Frumtamningareglugerð

Tamningapróf  Hólaskóla og FT

Frumtamningar skólaárið 2006-2007.

Nemendur sem útskrifast með tamningapróf  Hólaskóla og FT eiga kost á að gerast félagsmenn í Félagi Tamningamanna (FT) nái þeir settum lágmarkskröfum á tamningaprófi því sem hér er lýst. Gangi þeir í FT fá þeir réttindi félagsins í  frumtamningadeild og geta kallað sig tamningamenn. Þeir mega bera búning félagsins og merki þess úr bronsi. 
Nám til tamningaprófs er tvær annir. Fyrri önn á Hólum og seinni önn á verknámsstað. Tamningapróf FT og Hólaskóla er samsett úr eftirfarandi námsþáttum.

Fyrri önn
Seinni önn
1.Frumtamningar I (6 e)
1.Frumtamningar II - verknám (8 e)

2.Reiðmennska og þjálfun  (5 e)
2.Þjálfun  - verknám (5 e)

3.Þjálfunarfræði (1 e)
3.Valgrein - verknám (2 e)

4.Járningar (2 e)
.
5.Fyrirtækjarekstur (1 e)
.
Samtals: 15 einingar  Samtals: 15 einingar

Markmið: Að nemandinn öðlist fræðilega þekkingu, verklega færni og sjálfstæði í vinnubrögðum til frumtamninga og framhaldsþjálfunar. Einnig til að standa fyrir fjölþættum rekstri á sviði hestamennsku og hrossaræktar s.s. rekstri tamningastöðva.

Einkunnir eru gefnar á einkunnaskala Hólaskóla frá 0 - 10 í hálfum og heilum tölum. Einkunnir eru gefnar á eftirfarandi hátt:

0 = ekki sýnt
1 = afspyrnu lélegt
2 = afleitt
3 = slæmt
4 = sæmilegt
5 = viðunandi
6 = nokkuð gott
7 = gott
8 = mjög gott
9 = frábært
10 = óaðfinnanlegt - fullkomið
 
Lágmarkskröfur til tamningaprófs eru eftirfarandi:
1) 5.0 í aðaleinkunn hvers áfanga námsins svo og úr einstaka prófhlutum í samræmi við kennsluáætlun skólans.
2) 5.0 í meðaleinkunn fyrir “dómari ríður trippi” í frumtamningu.  Í frumtamningu II þarf meðaleinkunn 5.0 fyrir a.m.k. tvö trippanna í þessu atriði.
 Kennarar Hólaskóla með þjálfara- og A eða B-reiðkennararéttindi hafa yfirumsjón með kennslu í frumtamningum, reiðmennsku og þjálfunarhestum. Almennar reglur skólans gilda um fyrirkomulag prófa, prófdæmingu, endurtökurétt og sjúkrapróf nema annað sé tekið fram varðandi einstök próf. Prófdæming á frumtamningu I og II og þjálfun (verknám) skal vera í höndum viðkomandi kennara auk eins fulltrúa frá FT. Ef nemandi fellur í frumtamningu I og/eða reiðmennsku og þjálfun þarf hann að endurtaka viðkomandi áfanga næst þegar þeir eru kenndir við skólann. Falli nemandi í frumtamningu II og/eða þjálfun verður hann að endurtaka viðkomandi áfanga með því að taka verknámið upp á nýtt (sjá nánar skólareglur Hólaskóla).

1.  Frumtamning I og II

1.1. Námstilhögun-markmið

1.1.1. Frumtamning I
 Nemandi frumtemur tvö trippi sem skólinn leggur til og velur. Trippin skulu vera bandvön, mega vera vanin við beisli og hnakk en að öðru leyti ótamin.  Þau eru tekin út af frumtamningakennara skólans í upphafi tamningatímans. Hann útfyllir í því sambandi til þess gerð eyðublöð. Þessi úttekt er svo endurskoðuð og yfirfarin af frumtamningakennara í ljósi fenginnar reynslu eftir 1.-3. vikna tamningu. Tamningatímabilið er 10-12 vikur, 4-5 kennslustundir á viku. 
Á þessu  tímabili eru kennd vinnubrögð við frumtamningar frá grunni, ásamt skilningi og viðhorfi gagnvart hestinum og tamningu hans. 
Nemendur fá þjálfun í grundvallaratriðum frumtamninga sem byggja á þekkingu á atferlisfræði. Kennt er að byggja upp jákvætt viðhorf hjá trippinu gagnvart manninum. Farið er í æfingar sem styrkja leiðtogahlutverk mannsins, markmiðið með þessum æfingum er að tryggja að tamningin fari fram með vinsemd og virðingu.
Kennt er að teyma með manni og á hesti, hringtaumsvinna er kennd, ásamt undirbúning undir járningu og fyrir reið.  Farið er í byrjunarþjálfun undir manni, grunnatriði s.s. slökun, taumhald og ásetu. Þjálfun grunngangtegunda á frumtamningastigi, skilning á ábendingum, undirbúningsstig fimiæfinga og undirbúning undir töltþjálfun þ.e. grunnskilningur á samspili hvetjandi og hamlandi ábendinga.
Nemandinn velur annað trippið til að mæta með til prófs.
Áhersla er lögð á að gera hóflegar kröfur til trippisins og að nemandinn geri sér grein fyrir mikilvægi þess að viðhalda áhuga og vinnugleði trippisins til loka tamningatímans.  Sérstaklega þarf að vera vakandi fyrir þessu með minna þroskuð trippi og einnig síðasta hluta tamningatímans.
Nemandinn fylgist með hvernig tamningin gengur hjá öllum hópnum þegar hann er í námi á haustönn. Ef trippi forfallast á tamningatímanum er heimilt að láta nemandann taka við öðru trippi, sem er á sama tamningastigi að mati kennara, og hefur verið tamið jafnhliða við skólann.
Markmið:
Markmiðið er að við lok frumtamningatímabilsins  hafi eftirfarandi árangur náðst:
 Hesturinn er óttalaus og virðir manninn sem leiðtoga.
 Hesturinn er sáttur við manninn og fylgir honum fúslega laus í hringgerði.
 Hesturinn víkur til hliðar og bakkar eftir bendingum frá manninum við hendi.
 Auðvelt er að beisla hestinn.
 Hesturinn teymist vel við báðar hliðar, með manni og einnig á eftir.
    Hesturinn teymist vel á hesti báðum megin á fetgangi og að milliferð.
Hesturinn er sáttur og stendur kyrr þegar hnakkur er lagður á hann frá hvorri hlið sem er. 
Hesturinn er sáttur og stendur kyrr þegar taumur er settur upp og stigið er á bak frá hvorri  hlið sem er.
Hesturinn býður eftir knapanum og fer ekki af stað fyrr en að fenginni ábendingu hans.
 Hesturinn fer sáttur og spennulaus af stað og hugsar áfram.
Hesturinn er þjáll á tauma á báðar hliðar.
Hesturinn fari auðveldlega bauga til beggja handa og hann stöðvar létt við ábendingu knapans og stendur kyrr.
Hesturinn skilur hliðarhvetjandi fót og kann að víkja úr kyrrstöðu og á fetgangi.
Hesturinn sæki áfram (vilji) og fer hiklaust hverja þá braut sem knapinn vísar honum.
Hesturinn hefur vald á grunngangtegundunum; feti, brokki og stökki (tekið skal fullt tillit til náttúrulegs ganglags).
Hesturinn er spennulaus og hreyfingar hans frjálsar og óþvingaðar.
Hesturinn formi sig rétt miðað við tamningastig og kann að gefa eftir í hnakka á fetgangi.
Hesturinn er undirbúinn fyrir töltþjálfun.

1.1.2. Frumtamning II
Verknámskennari leggur nemandanum til 5 trippi sem henta í verkefnið. Trippin skulu vera bandvön (sjá skilgreiningu í frumtamningu I) og mega vera járnuð þegar þau eru tekin út af frumtamningakennara skólans í upphafi tamningatímans. Verknámskennari skal yfirfara úttektina, og skrá athugasemdir á þar til gerð eyðublöð, eftir 1.-3. vikna tamningu.  Þessi blöð eru afhent dómurum við prófdæmingu.
Æskilegt er að verknámskennarinn sé félagi í FT með reiðkennararéttindi og skilyrði er að hann/hún hafi sótt endurmenntunarnámskeið eða verknámskennarafund á sl. 2 árum. Verknámsstaður skal uppfylla ákveðnar kröfur um aðstöðu, s.s. hringgerði 12 til 16 m í þvermál og tamningagerði sem er á bilinu 15x20 upp í 30 x 80 m.  Æskilegt er að að slík aðstaða sé innanhúss en  skilyrði er að inniaðstaða sé að lágmarki 150 fm.
Við tamninguna skal nemandinn fylgja þeim vinnubrögðum sem kennd eru við skólann og eru markmið og áherslur í tamningunni hinar sömu og í frumtamningu I.  Ætlast er til að verknámsbóndi leiðbeini og aðstoði nemandann eins og þurfa þykir við tamninguna án þess þó að temja trippin sjálf(ur). Verknámsbóndi prófi m.a. öll trippin í reið. Nemandanum er skylt að þjálfa öll fimm trippin til loka tamningatímabilsins. Til prófs velur nemandinn 3 trippi.  Nemandinn dregur tvö þeirra og velur annað þeirra í dómsatriðið laust í hringgerði og teymingar með manni og hitt í hringtaum.

1.2. Dómsatriði
 Í öllu mati á neðangreindum dómsatriðum skal tekið tillit til upplags trippanna  (geðslags og ganglags) og fyrri úttekt höfð til viðmiðunar í hvívetna.
 
1.2.1. Útlit og heilbrigði trippisins.  3%
Trippið sé sællegt, vel kembt og snyrt, hárafar gott. Hófar séu vel hirtir og járning snyrtileg, skeifur af réttri stærð, þær vel lagaðar að hófnum og fótstaða rétt. Trippið sé ósárt í munni og án allra ágripa og sára. Ef sár finnst í munni er hámarkseinkunn 5.0.  Ef trippi er alvarlega sárt, vanfóðrað eða járningu verulega ábótavant er dómara heimilt að vísa því úr prófi og er þá viðkomandi nemandi fallinn.

1.2.2. Fætur teknir upp. 3%
Verknemi dregur út eitt trippi í verkefnið
Trippið er laust eða bundið.  Nemandinn taki upp alla fætur án átaka. Hann standi við hliðina á trippinu og strjúki rólega niður fótinn og það gefi hann auðveldlega. Trippinu gefinn fóturinn með gætni.

1.2.3. Farið á bak og af baki. 3%
Nemandinn standi þétt við hlið trippisins þegar hann setur tauminn upp og fer á bak. Nemandinn fer á bak þegar trippið stendur kyrrt, létt taumsamband eða aðeins slakur taumur. Hann stígur í ístaðið, stöðvar andartak utan á hliðinni áður en hann færir fótinn yfir, setur fótinn í ístaðið hinum megin og sest gætilega niður í hnakkinn. Trippið skal standa kyrrt rólegt og sátt og bíða eftir merki frá knapanum. Knapinn fer úr báðum ístöðum og rennir sér svo úr hnakknum. Sýna þarf atriðið á báðum hliðum hestsins.

1.2.5.   Nemandinn ríður trippunum. 22 %

 Búnaður: Hnakkur með reiða -reiðmúll-keyri-hringabeisli.
Aðstaða: Trippin eru dæmd á beinni braut eða vegi svo og í tamningagerði eða reiðskemmu.
Einkunnagjöfinni er skipt í eftirfarandi þætti:

1.2.5.1. Andlegt og líkamlegt jafnvægi
Áhugi, hlýðni, stjórnun   12% 
Trippið sé óttalaust og treysti manninum. Vöðvar trippisins án spennu. Hreyfingar taktvissar og óþvingaðar. Trippið leiti fram og niður þegar því er boðið það. Nemandinn sýni slakan eða langan taum á feti og brokki (eða kjörgangi).
Trippið sætti sig við leiðtogahlutverk knapans, sæki fram og sé fúst að fara hverja þá leið (stefnu) sem knapinn beinir því á. Nemandinn sýni bauga á feti og brokki (kjörgangi) og geti stoppað af feti og vinnuhraða með hestinn beinan. Einnig sveigjustopp af brokki eða tölti. Trippið svari hamlandi taum og léttum taumábendingum til hliðar, höfuðburður sé óþvingaður og spennulaus. Trippið kunni að kyssa ístöð.  Trippið sé eftirgefanlegt í hnakka á feti og í stöðvun og sé lifandi í munni. Trippið svari fótábendingum áfram og til hliðar og kann að víkja úr kyrrstöðu (framfótarsnúningur) og á fetgangi (krossgangur) af næmni, léttleika og án spennu. Knapinn fylgir hreyfingum hestsins af jafnvægi og mýkt, allar ábendingar rétt tímasettar og liprar. (Tekið skal tillit til ásetu og reiðmennsku nemandans.)

1.2.5.2. Grunngangtegundir 5%
Trippið skal hafi gott vald á grunngangtegundunum. Taka skal fullt tillit til fyrstu úttektar hvað varðar eðlisganglag. (Tekið skal tillit til ásetu og reiðmennsku nemandans þegar dæmt er.)

1.2.5.3. Samspil ábendinga 5%
Trippið hafi grunnskilning á samspili hvetjandi og hamlandi ábendinga. (Tekið skal tillit til ásetu og reiðmennsku nemandans.)

1.2.6.Trippið laust í hringgerði og teyming með manni.  14%
Búnaður: Snúrumúll, tamningataumur og reiðpískur. Einnig má nota beisli, reiðmúl, reiðtaum og reiðpísk.
Aðstaða: Í frumtamningu I eru verkefnin framkvæmd í reiðskemmu Hólaskóla og í hringgerði. Í frumtamningu II eru verkefnin framkvæmd í tamningagerði u.þ.b. 20x40m og hringgerði, innan húss eða utan.

1.2.6.1. Trippið laust í hringgerði  3% .
Nemandinn rekur trippið nokkra hringi í hringgerði á báðar hendur. Þegar nemandinn gefur leyfi kemur trippið áleiðis inn á miðjuna til hans. Nemandinn fari umhverfis trippið og strjúki því hátt og lágt. Trippið fylgir nemandanum þegar hann gengur í krákustígum um hringgerðið. Trippið sé gæft og sæki til nemandans en sýni honum þó virðingu og nemandinn sé greinilega leiðtoginn.

1.2.6.2. Teyming við hlið 8%
Nemandinn stendur við bóg trippisins. Taumurinn er niðri og í “nærhendi” pískur er í “fjærhendi”. Nemandinn gefur hvetjandi hljóðmerki og fylgir síðan hestinum við hlið hans.
Taumurinn er hafður sem slakastur og greinilega sést að trippið hlýðir nemandanum í einu og öllu.
Trippið skal vera stillt/sveigt að nemandanum og sé greinilegt bil á milli þeirra meðan á teymingunni stendur.  Trippið skal stöðvað með hljóðmerki og taumábendingu. Teymt skal við báðar hliðar.  Nemandinn geti sent trippið í kringum sig á feti og brokki upp á báðar hendur. Ekki er leyfilegt að teyma í hringgerði.

1.2.6.3. Teyming á eftir 3%
Nemandinn teymir trippið á eftir sér á feti og brokki. Taumur skal vera slakur. Nemandinn sýni stöðvun af brokki (eða kjörgangi) og láti síðan trippið bakka eina hestlengd, nemandinn snúi baki í trippið og fari síðan af stað á feti. Þetta skal framkvæmt að minnsta kosti tvisvar. 

1.2.7. Teyming á hesti  7%
 Búnaður sá sami og í lið 1.2.6. Verknemi dregur út eitt trippi í verkefnið.
Trippið  teymist átakalaust upp á báðar hendur. Trippið sveigi hálsinn að reiðhestinum, taumurinn sé sem slakastur og greinilegt bil (ca. 50 cm.) sé á milli trippisins og reiðhestsins. Nemandinn ríður af stað á feti síðan milliferð á tölti eða brokki.. Þegar trippið er fært yfir á hina hlið reiðhestsins má stíga af baki á meðan. Teymingar á hesti má sýna inni eða úti, ekki þó í hringgerði. 

1.2.8. Dómari ríður trippunum. 42%
Síðasti þáttur prófsins er að dómari (ar) fari á bak trippunum og prófi þau. Ef dómari telur trippi ekki reiðfært er honum heimilt að vísa viðkomandi trippi úr prófi og er þá viðkomandi nemandi fallinn. Dómari skal bera reiðhjálm þegar hann prófar trippin og vera kurteis og tillitssamur.
Dómarinn skal taka sérstakt tillit til viðmóts trippanna, að þau séu óttalaus og treysti knapanum, séu í líkamlegu og andlegu jafnvægi, séu hlýðin, sátt og  kergjulaus. Jafnframt á að kanna hvort nemandinn hafi gert hæfilegar kröfur og hvort tamningin hafi verið markviss.  Einkunnagjöfinni er skipt í eftirfarandi þætti:

1.2.8.1. Andlegt og líkamlegt jafnvægi
Áhugi, hlýðni, stjórnun   12%
Trippið sé óttalaust og treysti manninum. Vöðvar trippisins án spennu. Hreyfingar taktvissar og óþvingaðar. Trippið leiti fram og niður þegar því  er boðið það.
 Trippið sætti sig við leiðtogahlutverk knapans og sé fúst að fara hverja þá leið  (stefnu) sem knapinn beinir því á.

1.2.8.2. Grunngangtegundir  6%
 Trippið skal hafi gott vald á grunngangtegundunum. Taka skal fullt  tillit til fyrstu úttektar hvað varðar eðlisgang.

1.2.8.3. Svörun við taumábendingum   10%
Trippið svari vel hamlandi taum og léttum taumábendingum til hliðar og stöðvi af mýkt. Höfuðburður sé óþvingaður og spennulaus. Trippið sé eftirgefanlegt í hnakka á feti og í stöðvun og sé lifandi í munni.

1.2.8.4. Svörun við hvatningu áfram og til hliðar  8%
Trippið skilur hliðarhvetjandi fót og kann að víkja úr kyrrstöðu (framfótarsnúningur) og á fetgangi (krossgangur) af næmni, léttleika og án spennu.

1.2.8.5. Samspil ábendinga  6%
Trippið hafi grunnskilning á samspili hvetjandi og hamlandi ábendinga.

1.2.9. Vinnubrögð nemandans við tamningatrippið.  6%
 Þessi einkunn er alfarið gefin af frumtamningakennara í báðum prófunum. Í  prófi II skal einkunnin gefin að fenginni umsögn verknámskennara.
 Þessi einkunn tekur til færni nemandans og vinnubragða við tamningatrippin,  þar sem fullt tillit er tekið til upplags trippanna og allra ytri aðstæðna.  Nemandinn hafi tileinkað sér þau vinnubrögð og umgengni við trippin sem  kennd eru á skólanum.

1.3. Reglur um búnað.
Óheimilt er að nota hófhlífar og tunguband.  Almennt skal miða við að nota algengustu þyngd skeifna (8X20 mm., 10% frávik leyfilegt).  Þó er ekki óheimilt að nota 10 mm. skeifur í undantekningartilfellum ef kennari mælir með því.  Nota skal hringamél í samræmi við reglur LH um gæðingakeppni. Notkun botna er óheimil nema fyrir liggi vottorð dýralæknis um nauðsyn þess.