Félag Tamningamanna (FT) sendi formlegt erindi í byrjun nóvember til stjórnar LH og stjórnar Hestamannafélagsins Sörla um val á dagsetningu á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna árið 2026, þar sem hvatt er til endurskoðunar á dagsetningu vegna þess hversu stuttu mótið er áætlað fyrir Landsmót Hestamanna 2026.
Erindið má sjá hér að neðan:
Félag Tamningamanna vill hvetja Landssamband hestamannafélaga og hestamannafélagið Sörla að endurskoð dagsetningu fyrir Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2026. Útgefin dagsetning nú er 17.-21.júní sem er stuttu fyrir Landsmót hestamanna sem haldið verður 5.-11.júlí að Hólum í Hjaltadal
Eins og staðan er nú verða flest útimót á árinu 2026 haldin í maí og júní, bæði íþrótta- og gæðingamót. Þar að auki er flestar kynbótasýningar haldnar í maí og júní. Það er álit Félags Tamningamanna útfrá velferðarsjónarmiði hestsins að þessir tveir mánuðir, maí og júní, eru óþarflega þéttir í mótahaldi og sýningum.
Þetta skapar ekki bara mikið álag á knapa og aðstandendur heldur eru hestarnir undir miklu álagi og með litla endurheimt á milli móta sem getur m.a. leitt til álagsmeiðsla. Þegar það er svona stutt á milli móta þá getur það skapað óraunhæfar kröfur fyrir hesta og menn, og jafnvel reynst ómögulegt að taka þátt á tveimur stærstu mótum ársins. Ákjósanlegra hefði verið að lengja tímann á milli stórmóta.
Allir keppnisknapar vilja stefna hátt og það er markmið flestra að komast á Landsmót og Íslandsmót – fæstir vilja sitja eftir heima. Félag Tamningamanna beinir þeirri ósk til Landssambands hestamannafélaga að mótadagskrá stórmóta, með tilheyrand undankeppnum og úrtökum, sé stillt upp með hestvænum hætti og geri hestum og knöpum kleift að taka þátt á stórmótum.
Það er nær ógerlegt fyrir atvinnumenn sem koma af norðurhluta landsins að mæta Íslandsmót í júní því kynbótasýningarnar á Norðurlandi eru m.a. dagsettar 15.–19 júní á Hólum og 22.–24.júní á Hólum. Sjálfsagt væri þetta svipað vandamál fyrir knapa á Suðurlandi ef Íslandsmótið væri haldið á sömu dagsetningu á Norðurlandi.
Félag Tamningamanna leggur til að LH skapi sér langtímastefnu um að lengja keppnistímabilið til að dreifa álagi á hesta og knapa yfir sumartíma. Hefðin á Íslandi hefur verið sú að Íslandsmótið er haldið í júlí eftir Landsmót – enda er þ hásumar og hestar oft að toppa sig.
Þar sem LH er æðsti aðili hestaíþrótta á Íslandi og hefur skýrt markmið að velferð hestsins skuli ávallt höfð í forgrunni við alla almenna ástundun og í öllum hestaíþróttum þá höfum við trú á því að erindi okkar verði ígrundað vel og vandlega.
Virðingafyllst,
Stjórn Félags Tamningamanna
7. nóvember 2025


