Opið bréf til MAST – Áskorun

22.11.2021

Stjórn Félag Tamningamanna skorar á MAST að bæta eftirlit og reglugerð í kringum blóðtökur úr fylfullum hryssum á Íslandi.
Á myndbandi sem nýlega var birt á netinu kemur fram óásættanleg framkoma og meðhöndlun á hryssum við framkvæmd blóðtöku, sem er í raun ónauðsynleg aðgerð sem framkvæmd er í gróðaskyni. Á myndbandinu er gengið harkalega í hross, þau barin og eru greinilega skelkuð, í uppnámi og að mótmæla. Hryssur hafa þar greinilega ekki fengið viðeigandi undirbúning eða hafa ekki geðslag til þess að henta í þessa starfsemi. Það sama má segja um starfsfólkið. Að okkar mati er þetta kerfisbundið og síendurtekið dýraníð sem fer fram í myndbandinu.

Aðalmarkmið Félags Tamningamanna er að stuðla að réttri og góðri tamningu og meðferð íslenska hestsins. Stjórn Félags Tamningamanna ályktar að við þessar vafasömu aðgerðir sé lágmarkskrafa að hryssan sé tamin og róleg. Ef hún hefur ekki fengið nauðsynlegan undirbúning eða hefur ekki geðslag til þess ætti dýralæknir að vera skyldugur að neita að framkvæma aðgerðina. Að nota deyfilyf við þessa aðgerð ætti ekki að koma í stað tamninga
MAST þarf að tryggja að viðurkenndar aðferðir við að bandvenja hryssurnar og venja við aðstæður séu notaðar. Einnig að hætt sé við blóðtöku henti hryssan ekki í verkefnið, hvort sem það er vegna vöntunar á undirbúningi eða óhentugs geðslags.

Stjórn Félags Tamningamanna álítur þessa birtingarmynd vera kerfisbundið dýraníð og ekkert betra en hryllingsmyndbönd sem hafa verið birt úr sláturhúsum víða erlendis, nema síður sé þar sem hryssurnar fara ítrekað í sömu kringumstæður.

Stjórn FT.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *